"Það eru litlar svartar flugur á plöntunni minni, hvaða pöddur eru það?"
Svarðmý eru flugur sem eru að mestu skaðlaus kvikindi. Flugurnar sjálfar eru munnlausar og geta því ekki ollið miklu tjóni, en vá hvað þær geta verið pirrandi. Þeim þykir einstaklega gaman að fljúga upp í nef og augu. Flugstíllinn þeirra er óreiðugjarn og mætti stundum halda að þær væru fullar við stýrið.

Flugurnar fjölga sér með því að verpa eggjum á rakt yfirborði jarðvegs. Þegar eggin klekjast út, skríður lirfan niður í jarðveginn þar sem hún lifir á rotnandi lífrænum leifum og fínum rótarhárum. Fullvaxta plöntur ættu að þola ágang lirfanna auðveldlega en þær gætu valdið vandræðum hjá ungum og viðkvæmum plöntum.

Ég mæli ekki með því að nota eitur inn á heimilum eða í kringum matjurtir sama hversu "skaðlaust" eitrið á að vera þá er það samt eitur. Hægt er að beita lífrænum vörnum í formi þráðorma eða ránmaura sem ráðast gegn lirfum flugunnar í jarðveginum. En þær varnir eru frekar dýrar gegn vandamáli sem hægt er að leysa á ódýrari máta.

Ein besta leiðin til þess að losna við þessa óværu er að tryggja að yfirborð jarðvegsins sé sem þurrast. Þessu má ná með því að hylja jarðvegin með grófu efni líkt og vikri, perlite eða leirkúlum.