Sýrustig er mælikvarði á því hversu súr eða basískur vökvi er. Sýrustig er mælt í einingunni pH (pH gildi) og segir til um jafnvægi milli H+ og OH- jóna í vatnslausn.

Vatn er samsett úr tveimur frumefnum sem mynda sameindina H2O. Það þýðir að ein vatnssameind er samsett úr tveimur vetnisatómum og einu súrefnisatómi. Vatnssameindir eru að mestu leiti á forminu H2O, en einhver hluti vatns er á forminu H3O+ og OH-. Þetta gerist þegar að ein vatnssameind tekur við H+ frá annarri og verður að H3O+, sjá myndband fyrir myndræna útskýringu.

pH skalinn er frá 0 til 14.

Lausn telst súr ef pH gildið er á bilinu 0-7 en því lægra sem gildið er því súrara er það. Þegar að lausn telst súr er meira af H+ jónum heldur en OH- í lausninni.
Lausn telst basísk ef pH gildið er á bilinu 7-14 en því hærra sem gildi er því basískara er það. Þegar að lausn telst basísk er meira af OH- jónum heldur en H+ í lausninni.
Lausn telst vera hlutlaus ef pH gildið er 7 en þá eru H+ og OH- í fullkomnu jafnvægi.
Til að gefa mjög einfalda útskýringu á því hvernig sýrustig hefur áhrif á næringarlausn er hægt að líkja því við hita á vatni. Við -5°C ertu með ís, við 50°C ertu með vökva og við 150°C ertu með gufu. pH gildið breytir semsagt sumum efnum þannig að plantan nær ekki að nota þau. Kjörsýrustig við vatnsrækt er oftast á bilinu 5,5 til 6,5 pH eða örlítið súrt. Hinsvegar eru plöntur mjög misjafnar, t.d. er best að hafa bláber í jarðvegi með pH 4,5 og Sýrenur þola allt upp í pH 8.

pH gildi næringarlausnar getur breyst mjög hratt en með vel blönduðum áburði getur það haldist mjög stöðugt. Þegar rætur plantna taka upp neikvætt hlaðnar jónir (anjónir) þurfa þær að gefa frá sér aðra neikvæða jón (OH-) sem hefur hækkandi áhrif á sýrustig. Þegar rætur taka hins vegar upp jákvætt hlaðnar jónir þá verða þær eins og áður að gefa frá sér jónir á sömu hleðslu (H+) sem virkar öfugt og lækkar sýrustig. Mestu áhrifin á sýrustigið eru vegna upptöku á köfnunarefni vegna þess að plöntur taka það upp í svo miklu magni (sjá aðalnæringarefni). Hlutfall nítrats og ammóníum getur meðal annars verið notað til þess að hafa áhrif á sýrustig í ræktunarefni.