High-intensity discharge lamp (HID) eða háþrýst úrhleðslupera virkar þannig að rafmagni er skotið á milli tveggja rafskauta inni í túbu sem inniheldur lofttegundir og sölt með mismunandi málmtegundum. Þegar straumi er hleypt á túbuna hleypur fyrsti neistinn í gegnum lofttegundirnar og við það myndast mikill hiti sem veldur því að söltin bráðna, sjóða og mynda gufu sem breytist í rafgas við það að rafstraumur hleypur í gegnum hana. Við þetta myndast mikið ljós með mismunandi eiginleikum eftir því hvaða efni eru notuð í túbunni.

Þetta ætti að vera nóg af tæknilegum útskýringum til að fæla flesta í burtu svo nú getum við byrjað að tala um eitthvað gagnlegt. Til eru nokkrar gerðir af HID lömpum en ég mun aðeins fjalla um háþrýsta natríumlampa (HPS) og málmhalógenlampa (MH). Þessir lampar eru algengir í gróðurlýsingar vegna þess hversu nýtnir þeir eru og öflugir ásamt því að gefa frá sér hentuga blöndu af litrófinu fyrir ljóstillífun plantna.

HPS lampar eru mest notaða gróðurhúsalýsingin í dag en þeir eru mjög nýtnir og gefa frá sér mikið af rauðgulu ljósi. Þrátt fyrir að við sjáum ekki aðra liti koma frá lömpunum þá er ljósið úr þeim samsett úr öllum litum regnbogans eins og sést á myndinni hér til hliðar. Á myndinni sést greinilega að mesta ljósgeislunin er rauðgul. Litróf HPS lampa er mjög hentugt fyrir blómstrandi plöntur og myndun ávaxta vegna mikils magns djúprauðra geisla sem örva meðal annars blómgun.

MH lampar eru lítið notaðir í íslenskum gróðurhúsum en hafa þó verið notaðir eitthvað í salatrækt. Þeir eru ekki alveg eins nýtnir og HPS, hafa styttri endingartíma en eru vel nothæfir. Ljósið frá þeim er skær hvítt til bláleitt. Blátt ljós stuðlar af þéttum vexti og miklum laufmassa. Þetta ljós er tilvalið í forræktun eða grænmetis og salats ræktun.

Það borgar sig að skipta um HID perur eftir 1-2 ár í notkun vegna þess að nýtni peranna rýrnar mikið, niður fyrir 70% af upprunalegri útgeislun en nota áfram jafn mikið af rafmagni.

Ef 400w pera sóar 30% þá ert þú að henda um 900 krónum á mánuði í ruslið.

Algengustu stærðir HID lampa í ræktun eru 250W, 400W, 600W og 1000W. 600W HPS eru sú stærð sem er vinsælust í gróðurhúsum í dag. Úrvalið af perum er talsvert og hægt er að fá venjulegar eða sérhæfðar perur. Sérhæfðu perurnar eru oft talsvert dýrari og ég tel aukinn kostnað ekki réttlætanlegann þrátt fyrir aðeins meiri afköst, þ.e.a.s. ég tel að það borgi sig frekar að fá sér ódýra 600W peru heldur en dýra 400W peru. Ég mæli samt með því að halda sig við þekkta framleiðendur.

HID perur þurfa straumfestu (ballast) til þess að virka en straumfestu má líkja við stórann straumbreyti til þess að einfalda málið. Straumfestur eru til í tveimur megin útgáfum:

Segul straumfestur (magnetic ballast)
Segul straumfestur eru ódýrari en gefa frá sér ögn meiri hita og eru því ekki eins nýtnar. Það er erfiðara að taka myndir/ video í kring um þær vegna þess hve þær blikka mikið.

Rafrænar straumfestur (digital/electronic ballast)
Rafrænar straumfestur eru talsvert dýrari en gefa frá sér minni hita og meira ljós fyrir örlítið færri wött. Þær þó geta stundum valdið truflunum á öðrum rafeindabúnaði eins og t.d. þráðlausum netum.