"Laufblöðin á plöntunum mínum eru götótt, er eitthvað að éta þau?"
Sniglar eru oft á tíðum til leiðinda í garðinum og geta valdið talsverðu tjóni ef þeir ná að fjölga sér óheft við góðar aðstæður. Ummerki um skemmdir vegna snigla eru m.a. óregluleg göt á laufblöðum og horfin lauf á smáplöntum þar sem aðeins stöngullinn er eftir.

Til þess að fullvissa sig um hvort vandamálið sé sniglar er hægt að gera sér ferð í garðinn að næturlagi og skoða plönturnar rækilega og athuga hvort einhverjir sniglar séu að sniglast á þeim. Sniglar eru viðkvæmir fyrir rakatapi og halda sig því á dimmum og rökum stöðum yfir daginn, eins og undir steinum, spýtum og garðaúrgangi. Þeir skríða svo út úr fylgsnum sínum á kvöldin eða í röku veðri og fara á beit.

Í baráttu við snigla er mikilvægt að byrja á því að útiloka þessi fylgsni eins og hægt er. Einnig er hægt að beita brellum eins og að leggja niður spýtu í garðinn sem sniglarnir safnast saman undir. Daglega er svo spýtunni lyft upp og sniglar undir henni fjarlægðir úr garðinum.

Sumir mæla með svokölluðum bjórgildrum en þá er einhverskonar íláti komið fyrir í garðinum. Ílátið er grafið niður í jarðveginn þannig að sniglarnir eigi greiðan aðgang að því og svo er það fyllt með bjór. Sniglarnir skríða svo í ílátið og drukkna. Reglulega þarf að tæma ílátið og bæta ferskum bjór í stað þess gamla svo þetta virki sem best.

Aðrar sniðugar leiðir til að gera sniglum erfitt fyrir eru að mylja eggjaskurn eða dreifa öðru grófu efni líkt og muldu hrauni yfir jarðveginn. Sniglar eru mjög viðkvæmar verur og slasast því auðveldlega á grófu undirlagi. Að lokum er hægt að fá sérstök koparlímbönd eða koparvíra sem sniglar fara ekki yfir en það byggist á því að sniglar forðast kopar.