Paprikur eru tiltölulega skemmtilegar plöntur til þess að rækta heima hjá sér en ég mæli með því að þær séu ræktaðar í stórum suðlægum gluggum, lokuðum svölum, garðskálum eða í gróðurhúsum. Það er hægt að rækta þær undir raflýsingu án sólarljóss en ég mæli með því að þær fái sem mest af sól á sig svo hægt sé að spara raflýsinguna. Þær eru frekar hægvaxta og gefa seint uppskeru sem þýðir að þetta eru ekki plöntur fyrir óþolinmóða.

Góður tími til að byrja að forrækta paprikur er frá febrúar til apríl svo þær séu komnar vel af stað þegar sólarljósið er sem mest og nýtist þeim þá betur. Plönturnar þurfa einhverja raflýsingu í fyrstu en í apríl-maí ættu þær að geta vaxið við hreina náttúrulega lýsingu fái þær hana í nægu magni.

Fjölgun
Oftast eru paprikur ræktaðar frá fræjum. Einnig er mögulegt að fjölga þeim með græðlingum, en þar sem ég hef enga reynslu af því þá þori ég ekki að fullyrða að það gangi jafn vel.

Lítið mál er að rækta paprikuplöntur frá fræjum úr paprikum úr búðinni en þær koma af plöntum sem eru sérhæfðar fyrir þaulrækt í gróðurhúsum og oft af blendingsplöntum sem gefa af sér mjög óregluleg afkvæmi. Ég mæli því ekki með því að nota þannig fræ því maður veit ekkert hvernig plöntur koma frá þeim.

Þau fræ sem eru í boði í garðyrkjuverslunum kallast oft herloom eða F1. F1 eru fyrrnefndar blendingsplöntur og eiga að vera mjög áreiðanlegar og jafnari í vexti en herloom. F1 fræ eru oftast dýrari því þau eru mun flóknari í framleiðslu. Herloom fræ eru ódýrari en geta líka alveg verið mjög stöðugar í gæðum. Líklegra er þó að F1 fræ séu sjúkdómsþolnari og gefi betur af sér. Það eru kostir og gallar við báðar tegundirnar en ég persónulega myndi velja F1 frekar en herloom paprikur nema það sé um að ræða sérstakt yrki með einhverja eiginleika sem ekki fást sem F1. Hér má nefna litbrigði, stærð, bragð o.fl. Miðað við annan kostnað þá er smá aukakostnaður vegna frækaupa vel þess virði ef það eykur gæði plantnanna.

Spírun
Dreifið fræjunum í bakka eða dall með um 2-3 cm þykkan jarðveg. Ég sái yfirleitt tvöfalt fleiri fræjum en ég ætla að nota og vel svo bestu plönturnar. Eftir að búið er að dreifa fræjunum ofan á jarðveginn er þeim þjappað lauslega niður til að þau snerti jarðveginn örugglega en á þessu stigi er ágætt að spreyja vatni yfir fræin og svo má strá þunnu lagi af jarðvegi yfir fræin svo þau séu rétt svo hulin. Að lokum er plastpoka, filmu eða öðru álíka komið yfir ílátið til að halda öllu röku og það sett á hlýjan og bjartan stað en þó ekki í beina sól. Paprikufræ spíra best við hitastig á bilinu 25-32°C en það tekur mun lengri tíma að spíra fræin ef hitastigið er undir 20°C.

Samkvæmt mínum tilraunum skiptir nánast engu máli hvort fræin spíra í myrkri eða ljósi eða hvort þau séu hulin jarðvegi eða ekki. Það er hinsvegar mikilvægt að plönturnar fái ljós um leið og þær spíra. Ég mæli því með að láta fræin annaðhvort spíra undir ljósi ofan á jarðveginum eða undir þunnu lagi. Kosturinn við að hafa ekkert ofan á fræjunum er að geta fylgst nákvæmlega með því hvernig spírunin gengur en kosturinn við að strá þunnu jarðvegslagi yfir fræin er að plöntunum gengur betur að losna við fræskurnina.

Uppvöxtur
Eftir að fræin hafa spírað og kímplönturnar hafa flestar losað sig við fræskurnina, sem gengur betur við hátt rakastig, er kominn tími á að venja plönturnar við lægra rakastig og koma þeim í stærri potta. Fínt er að byrja á litlum pottum sem eru á stærð við jógúrtdollu og færa plönturnar í stærri potta eftir nokkrar vikur þegar rótarkerfið er orðið þroskaðra. Ég miða við að plantan sé orðin örlítið breiðari og hærri en litli potturinn þegar ég umpotta þeim.

Hitastig
Paprikur vaxa best við hitastig í kringum 20°C en fari það mikið undir 15°C er hætta á hægum vexti, rótarsjúkdómum og lítilli uppskeru. Það er því óráðlegt að rækta paprikuplöntur yfir vetur í of köldu rými eða utandyra á sumrin. Þær þola hitastig upp undir 30°C en fari hitastig yfir það er hætta á vandræðum í vatnsbúskap plöntunnar. Hitastig vökvunarvatns ætti heldur ekki að fara út fyrir þessi hitamörk.

Lýsing
Paprikuplöntur svara gróðurlýsingu vel en þær þurfa talsvert mikið ljós til að vaxa vel. Aukin lýsing hefur yfirleitt jákvæð áhrif á magn uppskeru.

Gróðuhúsabændur nota HPS lampa og lýsa plönturnar með um 150-250 W/m2 með ágætum árangri. Ekki er nauðsynlegt að nota raflýsingu þegar ræktað er í gróðurhúsi eða gróðurskála en ég mæli með því að fólk skoði lýsingar til að hámarka uppskeru.

Plöntur ræktaðar í gluggum fá aðeins ljós á sig úr einni átt og það getur ruglað þær í vextinum. Flúrlampar og jafnvel sparperur eru fín lausn á þessu ef það er vandamál. Hafa skal í huga að ljós í t.d. stofuglugganum getur verið óþægilegt að mati sumra en hinsvegar getur öðrum fundist upplýstar plöntur vera hið mesta stofustáss.

Sé ræktunin innandyra þar sem lítið sem ekkert ljós berst að utan er raflýsing nauðsynleg og betra að nota meira afl eða um 250-400W/m2.

Daglengd
Paprikuplöntur eru dagóháðar sem þýðir að daglengd stýrir ekki vaxtarfasa plantnanna. Ég hef rekist á rannsóknir sem benda til þess að a.m.k. sumar capsicum plöntur hafi ekki gagn af lýsingu sem fer yfir 16 klst á dag. Óráðlegt er að daglengd fari undir 10 klst því þá nær plantan ekki að framleiða næga orku til að mynda ávexti. Ég mæli eindregið með 16 klst lýsingu á dag.

Áburðargjöf/Vökvun
Paprikuplöntur eru nokkuð frekar á áburð og því borgar sig að hugsa vel um áburðargjöf hvort sem ræktað er í vatnsræktun eða í mold. Leiðnitala vökvunarlausnar ætti að vera á bilinu EC 1,5-2,5 mS og afrennsli um EC 2,0-2,5 mS og pH 5,5-6,5. Plönturnar eru viðkvæmar fyrir stílroti og því skiptir miklu máli að plantan hafi aðgang að réttum næringarefnum í nægjanlegu magni.

Stílrot er í grunninn kalsíumskortur. þegar plantan verður fyrir kalsíumskorti myndast svartur blettur á botni ávaxta sem eru í vexti. Ástæðan fyrir því er að kalsíum er illfæranlegt næringarefni sem plöntur nýta í uppbyggingu frumuveggja. Ef plöntur fá ekki nægan aðgang að kalsíum eru frumuveggir í nýjum vexti ekki nægjanlega harðgerðir og fruman springur og drepst auðveldlega. Ástæður fyrir slíkum kalsíumskorti eru annaðhvort vegna kalsíumskorts í umhverfinu eða truflunar á vatnsbúskapi innan plöntunnar. Truflanir á vatnsbúskap innan plöntunnar eru algengar vegna þess að jarðvegurinn þornar of mikið á milli vökvanna eða ef hitastig fer of hátt.

Varist að gefa næringu með of hátt hlutfall af köfnunarefni (N) en þá er hætta á að plantan einbeiti sér frekar að vexti laufblaða en ávaxta. Einnig verður plantan álitlegri fyrir ýmiskonar óværur.

Til að einfalda áburðargjöfina en hafa hana nokkuð nákvæma mæli með eftirfarandi hlutföllum af næringum við ræktun á paprikum. Blandið eftirfarandi næringum út í 5 lítra af vatni og þynnið með vatni þar til ásættanlegt EC gildi næst. Ef ekki er notast við EC mæli þá er í lagi að blanda þessu í 10 lítra af vatni og vökva með því.

Grænvöxtur
15ml GHE Bloom
20ml GHE Micro
20ml GHE Grow
2gr Kalkkorn

Aldinvöxtur
20ml GHE Bloom
15ml GHE Micro
20ml GHE Grow
2gr Kalkkorn

Athugið að kalkkorn leysast illa upp í vatni og því getur verið slæmt að nota þau í viðkvæm vökvunarkerfi. Það getur verið betra að leysa þau upp sérstaklega og handvökva beint í rótarbeðið. Þannig er betra að nota annarskonar kalkrík áburðarefni sem leysast betur upp eins og t.d. kalksaltpetur en þá þarf að reikna áburðarlönduna upp á nýtt og málin flækjast.

Það er mjög góð regla að vökva þannig að a.m.k. 10% vökvunarvatns renni út um botn blómapotts. Það kemur í veg fyrir að ónotuð næringarefni safnist upp ásamt því að líkur eru á því að vatnið sé orðið súrefnislaust. Afrenslið er svo hægt að mæla með pH og EC mælum til að sjá hvaða aðstæður eru í rótarbeðinu.

Ræktunaraðferðir
Þaulræktun
„Landbúnaður þar sem mikil aðföng (vinna, áburður o.s.frv.) eru notuð til framleiðslunnar, miðað við hverja flatareiningu lands og miðað að hámarks afrakstri.“

Í gróðurhúsum og garðskálum er hægt að beita þaulræktunaraðferðum. Þá vaxa plönturnar beint upp við stuðning bands eða priks. Mest allur hliðarvöxtur er fjarlægður og plöntum er plantað þannig að þær myndi röð eða vegg. Á milli raða eru gangfærir stígar svo auðvelt sé að vinna við viðhald plantnanna. Það þarf að fjarlægja fallin og sýkt lauf, klippa hliðarvöxt, fylgjast með heilsu og ástandi á plöntunum, fylgjast með sníkjudýum og þekkja ummerki þeirra, vökva, viðhalda ræktunarbúnaði, binda plönturnar upp o.fl.

Vetrargarðurinn
Á haustin set ég upp vetrargarðinn í gróðurtjaldi innandyra og capsicum plöntur eru oft í einhverju hlutverki þar. þær vaxa mjög vel undir 400W HPS lampa og hægt er að hafa allt að 6-8 millistórar plöntur undir hverjum lampa. Ég raða plöntunum þannig að hærri plönturnar séu til hliðana og þær lægri í miðjunni. Þetta atriði tryggir mun betri nýtingu á lýsingunni.

Í vetrargarðinum klippi ég yfirleitt ekki plönturnar mikið og leyfi þeim að vaxa frekar villt. Ég raða þeim upp undir ljósinu eftir vexti þeirra og fjarlægi nánast bara dauð lauf og þroskaða ávexti. Ef mér finnst vöxturinn vera orðinn til vandræða þá raða ég þeim upp á nýtt og sveigi þær til eða klippi eitthvað ef mér finnst það alveg nauðsynlegt.

Gluggaræktun
Gluggaræktun fer eftir stærð gluggana og umhverfi. Í flestum tilvikum myndi ég mæla með því að leyfa plöntunum að vaxa frekar villt en fjarlægja allan vöxt sem ekki fær á sig beint sólarljós. Plönturnar greina sig yfirleitt í tvær og svo fjórar greinar. Þær greinar sem vaxa í áttina frá glugganum borgar sig að fjarlægja um leið og þær fá ekki beint sólarljós á sig.

Pottastærð
Plönturnar þurfa misstóra potta eftir stærð yrkis og aðstæðum en ég hef notast við 6,5-18 lítra potta með góðum árangri. Sé notast við litla potta þarf að vökva oftar og hætta á ofþornun eykst. Ef plantan verður fyrir vatnsskorti þá eru miklar líkur á að stílrot myndist á þeim aldinum sem eru í vexti á plöntunni þegar það gerist. Of stórir pottar auka hinsvegar hættuna á rótarsjúkdómum vegna þess að líkurnar á ofvökvun eykst þegar jarðvegurinn heldur of miklu vatni miðað við stærð plantna. Þá geta ræturnar orðið fyrir súrefnisskorti og dáið eða orðið viðkvæmar fyrir ýmsum sjúkdómum.

Rótarbeðsefni
Mikilvæg er að rótarbeðsefni passi fyrir þá ræktunaraðferðir sem er verið að beita. Í beðum og pottum er betra að nota torfmold, moltu og/eða kókostrefjar í blandi við vikur, perlite eða sand fyrir drenun. Í vatnsræktun eru kókostrefjar, vikur og leirkúlur hvert fyrir sig eða í einhverskonar blöndu ágætis kostur. Hafa þarf í huga að eftir því sem hærra hlutfall er af kókostrefjum eða torfmold því meira vatn getur rótarbeðsefnið haldið sem stuðpúða ef eitthvað óvænt kemur upp á. Að mínu mati er blanda af 80% kókostrefjum og 20% leirkúlum, perlite eða vikur eitthvað sem virkar við nánast allar aðstæður. Það má svo bæta moltu við blönduna í stað hluta af kókostrefjum. Endilega kíktu á greinarnar um rótarbeðsefni.

Blómgun
Eftirfarandi aðferð á helst við ræktun á stórum og kjötmiklum aldinum. Þegar kemur að því að fyrsta blómið blómstrar þá er það mitt ráð að klípa það af. Ástæðan fyrir því er að gefa plöntunni færi á að verða öflugri áður en hún fer að setja allan sinn kraft í vöxt ávaxta. Flestar plöntur fara að hægja á grænvexti þegar þær eru byrjaðar að mynda ávexti og eftir því sem meira af ávöxtum eru í vexti á plöntunum því minna af orku fer í grænvöxt. Það getur því verið kostur að plantan nái að mynda fleiri laufblöð undir fyrsta aldini til að fá betra forskot.

Frjóvgun
Til að plantan fari að mynda ávexti er nauðsynlegt að blómin nái að frjóvgast. Þau blóm sem þú vilt fá aldin á þarf að frjóvga. Blómin eru sjálffrjóvgandi þannig að ekki þarf að bera frjókorn á milli blóma. Þau frjóvgast jafnvel oft ágætlega án hjálpar. Það er hinsvegar hægt að handfrjógva plönturnar til þess að auka líkur á góðum aldinum. þetta er oft gert með því að banka í stofninn eða í blómin sjálf. Sé bankað í stofninn er hægt að nota grófari vinnubrögð og áhöld. Bambusprik eru sniðug fjölnota verkfæri sem nýtast til ýmissa verka og er frjóvgun eitt af þeim. Einnig er hægt að nota rafmagnstannbusta eða önnur tæki sem titra ;-) en þá er tækið notað þannig að það snerti blómstilkinn að neðanverðu í um eina sekúndu. Sé blómstilkurinn snertur að ofan er meiri hætta á að hann brotni.

Það getur verið erfitt að fækka blómunum en sé þeim ekki fækkað mun plantan mynda of mörg aldin í einu og þau verða þá minni og ljótari og plantan vex hægar. Í þaulræktun er þetta mjög mikilvægt en fyrir leikmenn er þetta frekar eitthvað sem gott er að vita af og prufa sig áfram með.

Uppskera
Hægt er að uppskera aldin hvenær sem er. Það er hinsvegar álitamál hvort ávextirnir séu ætir vegna beiskju þegar þeir eru mjög óþroskaðir. Sumum finnst grænar paprikur góðar og ég mæli með því að fólk prófi ljósgrænar líka. Á vaxtastigi aldinana eru þau ljósgræn.

Fljótlega eftir að aldin ná fullri stærð dökknar græni liturinn og aldin verða stinnari og kjötmeiri. Það er yfirleitt á þessu stigi sem grænar paprikur sem fást í búðum eru uppskornar.

Það tekur nokkrar vikur til viðbótar fyrir aldin að ná fullum þroska og þá litast þau ýmsum litum eftir yrki. Til eru m.a. rauðar, gular, appelsínugular, svartar og brúnar paprikur. Best er að bíða þar til að paprikan hefur öll tekið lit áður en hún er uppskorin svo bragðgæðin séu sem mest.

Það léttir á plöntum að uppskera græn aldin en þá vaxa þær hraðar sem flýtir fyrir þroska annara aldina. Í þaulrækt er mikið hugsað um þetta og vissum aldinfjölda á plöntu er haldið með því að fjarlægja blóm og tína græn aldin. Ég mæli hinsvegar með því að leikmaðurinn viti af þessu og prufi sig áfram. Sjálfur hef ég yfirleitt látið öll aldin ná fullum þroska en í staðin verða þau frekar smá, misjöfn og eru lengi að ná fullum þroska ásamt því að plönturnar vaxa hægar. Það getur verið gott að plantan vaxi hægt ef plássið er lítið.

Óværur
Paprikuplöntur eru frekar vinsælar hjá ýmsum sníkjudýrum en þau algengustu hér á landi eru blaðlús, spunamaur, kögurvængja og hvítfluga. Erfitt getur reynst að koma í veg fyrir óværur af þessu tagi en algengast er að þær fljúgi eða skríði inn um glugga eða berist inn með t.d. plöntum, fatnaði eða jarðvegi.

Ég mæli eindregið með því að forðast að eitra fyrir óværum í plöntum sem ræktaðar eru innan heimilis af augljósum ástæðum. Spretti upp faraldur þá mæli ég með lífrænum vörnum sem fást t.d. í Innigörðum. Sé það ekki heppilegt er betra að losa sig við sýktar plöntur en að beita eitri.