Kryddjurtir eru mjög einfaldar og auðveldar í ræktun ásamt því að vera nytsamlegar í matargerð. Margar þeirra hafa þá eiginleika að ilma einstaklega vel. Ef það er nægt pláss þá er sniðugt að prufa sem flestar tegundir og finna hvað bragðast og virkar vel, annars er betra að velja eitthvað sem að maður notar mikið.

Það helsta sem þarf að hafa í huga við ræktunar á kryddjurtum er:

 

Ílát:
Hægt er að rækta kryddjurtir í pottum, bökkum, eða hverju sem heldur jarðvegi, hvort sem það er notast við jógúrtdósir, fullkomið vatnsræktunarkerfi eða eitthvað þar á milli. Einnig geta sumar jurtir vaxið utandyra.

Ljós:
Kryddjurtir þurfa margar hverjar ekki sérstaklega mikið ljós, innandyra er sólríkur gluggi það eina sem þarf. Ef nota á sólarljós til ræktunar þá ber að hafa í huga að yfir dimmustu vetrarmánuðina stöðvast vöxturinn og hefst aftur í byrjun mars. Einnig er þó hægt að notast við flúrljós ef sólríkan glugga vantar eða til þess að rækta yfir veturinn.

Hiti:
Flestum kryddjurtum líður ágætlega við stofuhita, en sumar þola kulda ekki vel.

Vatn:
Það má ekki gleymast að vökva plönturnar. Það þarf að vökva oftar á sólríkum dögum og flestar kryddjurtir þola illa að jarðvegurinn þorni alveg.

Næring:
Næringu fá plönturnar ýmist úr jarðvegi eða úr fljótandi næringu. Mikilvægt er að plöntur hafi aðgang að næringu ef þær eiga að vaxa hratt og vel.

 

Þetta er það helsta til að hafa í huga til að byrja með en betra er að kynna sér hverja plöntu fyrir sig og þarfir hennar.