"Það eru litlar hvítar flugur á plöntunni minni, hvaða pöddur eru það?"
Eins og nafnið gefur til kynna þá eru hvítflugur hvítar, en þær eru alls ekki flugur heldur eru þær lýs með vængi sem eru þaktir hvítu púðri og því köllum við þær mjöllýs. Eins og aðrar lýs nærast þær á sykurvökva sem þær sjúga úr sáldæðum plantna, oftast eru þær undir laufblöðum.

Lífsferill mjöllúsar er þó nokkuð flókin en það helsta sem skiptir máli er að eitt stigið er egg sem þær verpa undir laufblöð. Lýsnar ganga svo í gegn um nokkur stig á 20-30 dögum sem að erfitt er að drepa með eitri og þess vegna þarf að endurtaka eiturúðun.

Ýmis hússráð eru til um hvernig hægt er að berjast við þær án þess að nota sterk eiturefni, sítrónudropar, mild sápa, ilm olíur, þörunga áburður og ýmis jurtaseyði er hægt að nota. Þá er yfirleitt blandað 10ml af virka efninu út í 1 líter af vatni. Jurtaseyði er t.d. hægt að vinna úr rabbabaralaufum eða chillipipar. Möguleiki er á að halda mjöllúsinni niðri með endurtekinni úðun, mér þykir þó ólíklegt að þessar aðferðir nái að útrýma skaðvaldinum algjörlega nema með miklu erfiði. Hægt er að fá sníkjuvespur sem verpa í egg hvítflugunnar og halda þannig stofni lúsarinnar í lágmarki. Einnig er hægt að fá ránmaura sem elta þær uppi og éta þær. Ég mæli þó ekki með vespunum eða maurunum nema um sé að ræða stærri ræktun. Sé um litla ræktun að ræða þá ætti mjöllúsin ekki að skipta svo miklu máli svo oft er hægt að hundsa hana eða nota húsráðin gegn henni.