Dropavökvun, drip- eða seyti-kerfi er ekki bara notað í vatnsrækt heldur er þessi aðferð mikið notuð í garðyrkjuiðnaðinum hvort sem er í moldarbeðum eða í potta. Grunnhugmyndin er sú að næringarlausn eða vatni er dælt ofan á ræktunarefnið með dropaslöngum og dropapinnum niður í rótarbeðin.

Opin kerfi (drenað til spillis)

Í gróðurhúsum á Íslandi er algengt að þessi tegund kerfis sé ekki hringrásarkerfi heldur er rennslinu stjórnað af nokkurri nákvæmni eftir upptöku plantna þannig að umfram vökvun er oftast um 20-30% þannig að hluti næringarlausnarinnar rennur í gegn um ræktunarefnið og ekki endurnýtt fer þannig til spillis. Þessi kerfi eru þess vegna ekki eins nýtin og hringrásarkerfi og það er augljóst að hringrásarkerfi spara manni talsvert í áburðargjöf.

Sé þetta kerfi notað í moldarbeðum er mjög mikilvægt að fylgjast með svo að ekki sé vökvað of lítið eða of mikið.

Lokuð kerfi (hringrásarkerfi)

Í hringrásarkerfi er næringarlausinni yfirleitt dælt í talsvert mikið meira magni en plöntur taka upp. Þá rennur mikið magn næringarlausnar í gegnum ræktunarefnið og aftur til baka í forðabúrið. Einnig eru til útgáfur af þessum kerfum þar sem sama tækni er notuð og í opnum kerfum fyrir utan það að umframvökvuninni er safnað í sér tank sem er svo blandað saman við vökvunarvatn í vissum hlutföllum en til þess þarf fullkominn búnað sem sér um að blanda lausnunum saman.

Mikilvægt er að ræktunarefni í þessu kerfi sé með mikið holurými svo að rætur hafi gott aðgengi að súrefni. Dæmi um góð ræktunarefni eru: steinull, vikur, perlusteinn, leirkúlur og kókostrefjar.

Að mínu mati er betra að vökva mikið í einu og sjaldan frekar en lítið í einu og oft. Það fer þó eftir ræktunarefni og plöntum hversu oft sjaldan er. Með stærri plöntur í kókostrefjum ættu eitt til fjögur skipti á dag í nokkrar mínútur í senn að vera nægjanlegt, en í leirkúlum myndi ég vökva að minnsta kosti á klukkutíma fresti. Það sem gerist þegar plöntur eru vökvaðar svo ríflega er að eldri súrefnislítilli næringarlausn er skolað út og ný súrefnisrík lausn kemur í staðin. Einnig fyllist holurými ræktunarefnisins af vökva á meðan vökvun stendur sem svo drenar aftur úr ræktunarefninu á milli vökvana. Við þetta dregst svo nýtt loft niður í holurými ræktunarefnisins. Þannig ættu rætur plantna ávallt að hafa nægt aðgengi að súrefni.

Kostir

Þetta kerfi er mjög gott byrjendakerfi, einfalt og ódýrt í uppsetningu. Það þolir óvænt stopp betur en sum önnur kerfi.það fer þó það eftir því hvaða ræktunnarefni er valið, leirkúlur eru verstar hvað þetta varðar.

Gallar

Dropapinnar geta stíflast vegna drullu, útfellinga eða þegar rætur vaxa upp í þá. Ráðlagt er að þeir séu hafðir sýnilegir og auðvelt að ná til svo hægt sé að fylgjast með þeim og þrífa reglulega áður en vandamál myndast. Einnig geta niðurföll í drenborði stíflast og þá er hætta á að það flæði úr kerfinu. Það getur því verið sniðugt að hafa það í huga við hönnun á kerfi.

Til öryggis mæli ég með því að fyrir hvern pott sem vökva á með dropavökvun séu tveir flæðihausar. þannig er hægt að koma í veg fyrir tjón þrátt fyrir að flæði í einn dropapinna skerðist óvænt.

Það sem þarf

Vatnsdæla og dropaslöngur
Tímarofi
Forðabúr (vatnstankur)
Drenborð, slöngur og ýmsir smáhlutir til að tengja drenborð við forðabúr
Loftdæla og loftsteinn eru ekki nauðsynleg en bæta súrefnisinnihald næringarlausnarinnar