Rafleiðni er í stuttu máli mæling á því hversu auðveldlega rafstraumur fer í gegnum vatn. Hreint vatn leiðir rafmagn mjög illa en þegar næringarefnum (næringarsöltum) er bætt út í það eykst leiðnin og þannig er hægt að áætla styrkleika næringarlausnar.

Til eru nokkrar mælieiningar til þess að áætla styrk næringarlausnar en ég tel EC vera þá bestu. EC (electrical conductivity) er mæld í mS (milliSiemens). Sumir mælar gefa leiðnitölu upp í ppm (part per million) en þeir mælar taka einfaldlega EC gildið og margfalda með mismunandi gildum eftir framleiðanda og það er ástæðan fyrir því að mér finnst þeir mælar ekki sniðugir.

 

Plöntur hafa ólíkar þarfir fyrir næringu og þola missterkar næringarblöndur. Of sterk næringarlausn inniheldur mikið af söltum sem gera upptöku vatns erfiðari vegna osmótísks þrýstings. Plöntur sem eru vökvaðar með næringarlausn sem hefur háa leiðnitölu geta þannig upplifað vatns- og næringarskort þrátt fyrir að nægt framboð sé af því.

Best er að finna leiðbeiningar á netinu fyrir viðkomandi plöntu og byrja frekar með blöndu í daufari kantinum og vinna sig hægt upp (dagar en ekki klukkutímar). Mikilvægt er að fylgjast vel með plöntunum og meta viðbrögðin ætli maður að hækka leiðnitöluna mikið. Flestar plöntur þola ágætlega að EC gildið sé á milli 1-1,8 mS. Það fer samt eftir tegund, t.d. þola tómatar ágætlega EC á milli 2-5 mS.

Með góðu næringaefni og daufri blöndu er ekki eins nauðsynlegt að mæla EC gildi, en í hringrásarkerfum yrði að skipta alveg um næringarlausn mánaðalega sé EC mælir ekki notaður.

Of lágt EC getur valdið hægum vexti og jafnvel næringarskorti en það getur líka valdið of miklum grænvexti sem kemur niður á aldinvexti.

Of hátt EC getur valdið hægum vexti og næringarbruna eða eitrun og jafnvel dauða. Hægari vöxtur getur verið kostur í vissum tilfellum.